aftur að froskinum hluti 2.

Froskurinn var eins og þið munið pínu hissa á þessum blessaða stól. Hann ákvað upp á sitt eindæmi að rölta í átt til þorpsins með stólinn og kannski gæti hann fengið lausn á þessu. Þið spyrjið ykkur kannski: "Hvernig gat froski dottið svona í hug...er þetta ekki bara froskur?" Og satt að segja hugsaði froskurinn um þetta líka, en samt innst inni var þetta bara eðlilegt að hans mati.

Á sama tíma í höllinni í þorpinu var stúlka að vakna. Hún var með höfuðverk og soldið ringluð. Hún leit í kringum sig eins og hún væri að upplifa herbergið í fyrsta sinn. Á gólfinu var stóll á hliðinni. Stúlkan reis úr rekkju og fann ægilega til. Hún var með kórónu á höfðinu sem reif svona vel í hárið þegar hún festist í himnasænginni við rúmið. Þegar þessari glímu var lokið vatt stelpan sér að stólnum og reisti hann við. Stóllinn stóð örstutta stund, en féll svo á hliðina, til hægri. "Þetta er undarlegt!" sagði stúlkan og leiddi ekki lengur hugan að því hvar hún var og af hverju hún var með kórónu á höfðinu. Stúlkan tók stólinn og ákvað að finna lausn á þessu.

Froskurinn var kominn í þorpið með stólinn. Fólkið í þorpinu furðaði sig á að sjá frosk og ekki síður þegar það sá að blessaður froskurinn dröslaði stól með sér. Mesta furðu vakti þó að froskurinn gæti yfir höfuð dregið stólinn, en það gat hann.

framhald síðar.

Ummæli

Vinsælar færslur